Innlent

Þrjú sveitarfélög undir smásjá Eftirlitsnefndar um fjármál

Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Skagafjörður eru nú undir smásjá Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og tíu sveitarfélög þurftu sérstaka fjárhagsaðstoð vegna erfiðleika í fyrra. Forsætisráðherra sendir sveitarfélögum hins vegar pillu fyrir að ganga ekki í takt með ríkisstjórninni í hagsstjórn og kjaramálum opinberra starfsmanna.

Í setningarræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna skýrði Halldór Halldórsson, nýkjörinn formaður, frá því að 37 sveitarfélög hefðu á síðustu fjórum árum fengið viðvörun frá Eftirlitsnefnd. Raunar er það svo að tíu sveitarfélög þurftu sérstaka fjárhagsaðstoð í fyrra en þau voru Snæfellsbær, Siglufjörður, Blönduós, Húsavík, Ólafsfjörður, Dalvík, Aðaldælahreppur, Seyðisfjörður, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Á þessu ári hefur Eftirlitsnefndin haft afskipti af þremur sveitarfélögum vegna fjárhagsvanda; Skagafirði, Ísafjarðarbæ og Bolungarvík.

Sveitarfélögin hafa óskað eftir viðræðum við ríkisstjórnina um aukna hlutdeild í skatttekjum hins opinbera og nefndi Halldór sérstaklega fjármagnstekjuskatt.

Geir H. Haarde forsætisráðherra fagnaði auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga en taldi sum þeirra ekki hafa gengið í takt þegar ríkið skar niður framkvæmdir vegna þenslu, heldur á sama tíma aukið á framkvæmdir. Það hefði ekki auðveldað hagstjórnina. Sum sveitarfélög hefðu einnig hlaupist undan merkjum við gerð kjarasamninga, sem væri ekki í anda samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×