Innlent

Ekki pláss fyrir Iceland Express í flugafgreiðslunni á Reykjavíkurflugvelli

Flugfélag Íslands treystir sér ekki til að þjónusta fyrirhugað innanlandsflug Iceland Express á Reykjavíkurflugvelli og ber því við að flugafgreiðslan sé of lítil. Framkvæmdastjóri Iceland Express segir brýnt að samgöngumiðstöð verði reist á vellinum.

Iceland Express hyggst hefja samkeppni við Flugfélag Íslands í innanlandsflugi næsta vor og hefur óskað eftir því samstarfi við Flugfélagið um afgreiðslu farþega. Flugfélagið kveðst tilbúið að taka að sér þjónustuna bæði á Akureyri og Egilsstöðum en ekki á Reykjavíkurflugvelli og ber fyrir sig í svarbréfi að húsnæðið þar sé orðið of lítið fyrir þann rekstur sem þar er í dag.

Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, kveðst þó vonast til að samningar náist engu að síður við Flugfélagið. Að öðrum kosti verði Iceland Express að reyna að koma sér upp einhverskonar aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli.

Ólíkt öðrum flugstöðvum hérlendis er afgreiðslan í Reykjavík ekki í eigu ríkisins heldur einkaaðila. Birgir segir málið erfitt þar sem flugstöðin sé í eigu Flugfélags Íslands en Birgir kveðst líta svo á að rekstur hennar sé í raun niðurgreiddur af hálfu ríkisins og hún því ríkisstyrkt. Önnur flugfélög hafi fengið þar aðstöðu, eins og Landsflug og Atlantic Airways, og því sé eðlilegt að Iceland Express fái það einnig, gegn sanngjarnri greiðslu.

Birgir segir hins vegar brýnt að fá nýja flugstöð. Það þurfi að flýta samgöngumiðstöð. Hún geti bara ekki komið nógu snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×