Innlent

Vantar lengri flugbraut á Akureyri hið snarasta

Akureyrarbær og KEA hafa boðið flýtifjármögnun til að hægt sé að lengja brautina á Akureyrarflugvelli. Millilandaflug Iceland Express er í uppnámi vegna ófullnægjandi aðstöðu.

Forráðamenn í ferðaþjónustu á Norðurlandi lýsa vonbrigðum með að aðstæður hafi orðið til þess að Iceland Express hættir vetrarmillilandaflugi til Akureyrar í næsta mánuði. Þá er sumarflugið til skoðunar en forstjóri félagsins hefur sagt að stutt flugbraut, lítil þjónusta á vellinum og ítrekuð óánægja farþega með röskun á áætlun geti orðið til þess að stefna fluginu í hættu.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri segir brýnt að fluginu verði viðhaldið og aðstæður bættar á flugvellinum á Akureyri. Hann vonast til að lenging flugbrautarinnar um 500 metra verði sem fyrst að veruleika.

Hvað óánægjuraddir farþega varðar, en þeir hafa farið mikinn í fjölmiðlum undanfarið og sumir gengið svo langt að segja að þeir muni aldrei fljúga með Iceland Express oftar vegna seinkana og röskunar, segir bæjarstjórinn að menn megi ekki sýna dónaskap heldur verði að taka tillit til erfiðra aðstæðna svo sem veðurfars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×