Innlent

Íslendingar bjóðast til að miðla málum

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, ræddi við fréttamann NFS.
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, ræddi við fréttamann NFS. MYND/NFS

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði að loknum fundi með Miryam Shomrat, sendiherra Ísraels, í utanríkisráðuneytinu í morgun, að henni þættu skýringar Ísraela á árásum á óbreytta borgara Beit Hanoun á Gaza í síðustu viku ekki trúverðugar. Ísraelar segja að um tæknileg mistök hafi verið að ræða.

Sendiherrann gekk á fund utanríkisráðherra um klukkan ellefu, en var komin í ráðuneytið til fundar við embættismenn áður en tæplega eitt hundrað mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan ráðuneytið. Hún yfirgaf ráðuneytið síðan bakdyramegin, þannig að mótmælendur gátu aldrei sýnt henni andúð sína.

Að loknum fundinum sagði Valgerður að hún hefði afhent sendiherranum bréf til ísraelskra stjórnvalda, þar sem árásunum í síðustu viku væri mótmælt harðlega. Íslendingar viðurkenndu rétt allra þjóða til að verja sig en ekki væri hægt að fallast á skýringar að um tæknileg mistök hafi verið að ræða. Valgerður sagði Ísrael vera vinaþjóð Íslendinga og því væri erfitt að setja ofan í við vini, en það væri að hennar mati nauðsynlegt nú.

Utanríkisráðherra telur það ekki leið til lausnar mála að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Þá hefði fundur eins og fundurinn í morgun ekki getað átt sér stað. Hún sagði að Íslendingar væru hins vegar reiðubúnir til að koma til aðstoðar, t.a.m. með friðarviðræðum milli deiluaðila hér á landi, ef deiluaðilar teldu það geta komið að gagni. Valgerður sagðist hafa komið þessum skilaboðum áleiðis í viðræðum sínum við sendiherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×