Innlent

Jólin kosta 8 milljarða

Jólin kosta þjóðina átta milljarða króna - fyrir utan vask - ef spá Rannsóknarseturs verslunarinnar gengur eftir. Og valinn hópur smekkmanna hefur útnefnt jólagjöf ársins í ár.

Átta milljarðar samsvara því að hvert mannsbarn eyði um þrjátíuþúsund krónum - með vaski - í jólin á þessu ári. Býsna væn summa en samkvæmt spánni sem var kynnt á blaðamannafundi Rannsóknarsetursins og Samtaka verslunar og þjónustu í morgun, er þó gert ráð fyrir að heldur dragi úr þeim vexti sem orðið hefur í jólaverslun síðustu tvö árin. Spáð er að jólaverslun verði 9% meiri í ár en fyrir síðustu jól, en þá hafði hún vaxið um 10% milli ára.

Þá kemur fram í könnun sem setrið gerði að tveir þriðju Íslendinga gera jólainnkaupin ekki fyrr en í desember - og langflestir, eða sextíu og sjö prósent kaupa allar jólagjafir á Íslandi. Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, segir kaupmenn mjög bjartsýna - að venju. En Emil er líka bjartsýnn fyrir hönd íslenskra fjölskyldna - að þær nái að rétta úr kútnum eftir jólavísareikninginn?

Og hver er svo jólagjöfin í ár samkvæmt matshópi smekkmanna sem rannsóknarsetrið kallaði saman. En ekki hvað. Græja.Safa- og grænmetispressa.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×