Innlent

Margsinnis kvartað yfir lélegum merkingum

Vegfarandi segist hafa kvartað þrisvar vegna lélegra merkinga við framkvæmdir á Reykjanesbraut, þar sem banaslys varð um helgina. Árangurinn varð enginn. Vegatálmar úr plasti sem Borgarplast hefur hannað eftir erlendri fyrirmynd hafa fengið litlar undirtektir. Þeir eiga að vera mun hættuminni en steinklumpar sem notaðir hafa verið.

Hróbjartur Ágústsson hringdi í Umferðarstofu eftir að hafa ekið seint um kvöld um Reykjanesbrautina í ágústmánuði þar sem honum ofbauð lélegar merkingar vegna framkvæmdanna sem þar hafa staðið yfir.

Á leiðinni til baka sá hann örvamerki, sem þó var þeim megin götunnar, en það sást illa þar sem ekkert ljós logaði á því. Hálfum mánuði síðar þegar hann átti aftur leið þarna um og sá að ekkert hafði verið gert hringdi hann aftur í Umferðarstofu. Þeir bentu honum á að hringja í lögregluna í Hafnarfirði sem veitti því sem hann hafði að segja litla athygli.

Hróbjartur segist margsinnis áður hafa komið athugasemdum á framfæri en það hafi aldrei skilað neinu. Einu sinni var honum bent á að kæra verktaka framkvæmdanna. Hann fór til lögreglunnar í Reykjavík og var kæru hans ekki vel tekið.

Hróbjarti var þó alltaf vel tekið þegar hann hafði samband við Umferðarstofu á þess þó að eitthvað breyttist. Hann efast því um gang Umferðarstofu að þessu leiti og spyr hvort ekki þurfi að rýmka heimildir hennar til aðgerða.

Borgarplast hefur framleitt vegatálma úr plasti sem gætu komið í veg fyrir vegatálma úr steinsteypu sem sést víða. Hægt er að framleiða vegatálmana í hvað lit sem er, jafnvel sjálflýsandi og sjást þeir því mikið betur heldur en gráir steypuklumpar. Þá eru þeir mun hættuminni

Óli H. Þórðarson fyrrverandi forstöðumaður Umferðarstofu og lögreglan voru áhugasöm um plasttálmana en framleiðsla á þeim hófst 2003. En það sama átti ekki við um verktakana og því hefur gengið illa að koma þeim á markað.

Tveir menn sem komustu lífs af úr bílslysinu á Reykjanesbraut um helgina hafa verið úrskurðaðir í farbann til loka nóvember. Ekki var ljóst eftir slysið hver ók bifreiðinni og höfðu þeir réttarstöðu sakborninga við yfirheyrslur í gær. Lögreglan rannsakar meðal annars hvort um ölvunar- eða hraðaakstur hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×