Innlent

ASÍ segir ríkisstjórnina svíkja loforð um leiðréttingu vaxtabóta

Forysta Alþýðusambandsins segir stjórnvöld hafa svikið loforð frá því í sumar um leiðréttingu á vaxtabótakerfinu. Nýtt frumvarp fjármálaráðherra dragi mun minna úr skerðingu vaxtabóta en heitið hafi verið.

Í sumar lá við að verkalýðshreyfingin segði upp kjarasamningum vegna mikillar verðbólgu sem eytt hafði umsömdum kajarabótum. Aðilar vinnumarkaðarins náðu hins vegar samkomulagi sín á milli og ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu um aðgerðir til að bæta launafólki upp kaupmáttarskerðinguna. Í þeirri yfirlýsingu var m.a. lofað að gera útbætur á vaxtabótakerfinu, þar sem margir yrðu fyrir skerðingu bótanna vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs.

Tíu þúsund færri fengu vaxtabætur þegar þeim var úthlutað í ágúst síðast liðnum, en fengu bætur í fyrra. Þetta sparaði ríkissjóði að óbreyttu 700 milljónir króna í útgjöld. Fjármálaráðherra hefur hins vegar lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að vaxtabætur hjóna byrji að skerðast við 7,7 milljón króna hreina eign í stað 6,2 milljóna áður og við hreina eign einstaklinga upp á 4,6 milljónir í stað 3,7 milljóna áður. Þetta er um 25 prósenta hækkun skerðingarmarkanna og þýðir að sumir fá leiðréttingu á vaxtabótum sínum í ár.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins (ASÍ) segir að með þessu frumvarpi sé ríkisstjórnin að ganga á bak orða sinna, miðað við það samkomulag sem gert var í júní. Þá hafi ríkisstjórnin heitið nánu samráði við útfærslu þeirra leiða sem farnar yrðu við leiðréttingu vaxtabóta. Sú leið sem boðuð sé í frumvarpinu sé aftur á móti leið sem Alþýðusambandsforystan hafnaði að farin yrði. Hún bætti engan veginn þann skaða sem varð vegna hækkana á fasteignaverði.

Starfsfólk ASÍ hefur sett upp dæmi. Fyrra dæmið er af hjónum með 440 þúsund krónur í mánaðartekjur og 20,7 milljón króna húsnæðislán. Ef fasteignaverð hefði fylgt verðbólgunni hefðu þessi hjón fengið 236 þúsund krónur í vaxtabætur í ágúst síðast liðnum. Fasteignaverð hækkaði hins vegar um 29 prósent, eða um 25 prósent umfram verðbólgu og því fengu þessi hjón, vegna eignamyndunar, engar vaxtabætur. Miðað við hækkun fasteignaverðsins hefðu viðmiðunarmörk til skerðingar bóta, þ.e. hvenær bætur skerðast miðað við hreina eign, þurft að hækka úr 6,2 milljónum í 11,3 milljónir eða um 83 prósent.

Ef dæmið fyrir einstakling með 220 þúsund króna mánaðartekjur og 13, 5 milljón króna húsnæðislán er skoðað, sést að hann hefði fengið 105 þúsund í vaxtabætur ef húsnæðisverð hefði eingöngu fylgt verðbólgunni. Hann fékk engar bætur í ágúst vegna 29 prósenta hækkunar fasteignaverðs og viðmiðunarmörk hans hefðu þurft að hækka úr 3,7 milljónum í 6,8 milljónir, eða um 83 prósent í stað 25 prósent eins og frumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir.

Gylfi segir forystumenn ASÍ vænta þess að ríkisstjórnin muni þrátt fyrir þetta hafa samráð við ASÍ um útfærslu leiða og leggja til þá fjármuni sem heitið var að leggja fram til þessa máls og bæta úr þeim vanda sem fyrir er en koma ekki bara fram með einhverjar leiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×