Innlent

Keisaraskurðir hættulegir fyrir barnið

Danskir sérfræðingar eru ekki sammála því að keisaraskurðir að ósk móðurinnar séu barninu hættulegir.
Danskir sérfræðingar eru ekki sammála því að keisaraskurðir að ósk móðurinnar séu barninu hættulegir. MYND/Getty

Bandarískir vísindamenn segja keisaraskurði, sem barnshafandi kona óskar sjálf eftir, vera mun hættulegri fyrir barn en venjuleg fæðing. Í nýbirtum rannsóknarniðurstöðum þeirra kemur fram að börn sem tekin eru með keisaraskurði að ósk móðurinnar séu í þrefalt meiri hættu á að deyja í fæðingu eða eftir hana en þau sem fæðast með eðlilegum hætti.

Danska blaðið Politiken hefur hins vegar eftir þarlendum fæðingarlæknum að niðurstöður rannsóknarinnar komi ekki heim og saman við reynslu Dana. Þar hafi yfir 800 konur óskað eftir keisaraskurði á fyrstu sex mánuðum ársins og dánartíðni þeirra barna hafi ekki verið óeðlilega há. Einn þeirra bendir á að rannsóknin sé gölluð að því leyti að keisaraskurðir vegna áhættufæðinga séu teknir með inn í myndina og það skekki niðurstöðurnar.

 

Að sögn landlæknis tíðkast það ekki hér á landi að mæður geti óskað eftir keisaraskurði án þess að nein læknisfræðileg ástæða liggi að baki. Hann útilokar hins vegar ekki að slík tilfelli hafi einhvern tíma komið upp enda gilda engar verklagsreglur um skilyrði fyrir því að barn sé tekið með keisaraskurði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×