Innlent

Helmingur yfir löglegum hraða

Á myndinni eru lögreglumenn á Selfossi við hraðamælingar.
Á myndinni eru lögreglumenn á Selfossi við hraðamælingar. MYND/Pjetur Sigurðsson

Hraðamælingar lögreglunnar á Akureyri við grunnskóla gefa til kynna að rétt um helmingur ökumanna sem eiga leið þar um virða ekki hraðatakmarkanir. Hámarkshraði við skólana er 30 km/klst þar sem mikið er af börnum á gangi í nágrenninu.

Lögreglan hafði sérstakt eftirlit með ökuhraða við Glerárskóla og Brekkuskóla í gær og kærði 51 ökumann fyrir of hraðan akstur. Þar af verða þrír þeirra sviptir ökuréttindum í 1-2 mánuði. Sá sem var á mestri hraðferð mældist á 71 km/klst.

Þeir sem aka greiðar en 64 km/klst þar sem hámarkshraði er 30 km/klst missa ökuréttindi fyrir vikið.

Heildarsektarfjárhæð hraðskreiðra ökumanna við skólana í gær nær tæpum 700.000 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×