Formúla 1

Hætti hjá Renault vegna óvissu um framtíð liðsins

Fernando Alonso
Fernando Alonso NordicPhotos/GettyImages

Heimsmeistarinn Fernando Alonso hjá Renault, sem gengur í raðir McLaren á næsta tímabili, hefur gefið það upp að hann hafi ákveðið að yfirgefa liðið vegna óvissu um framtíð liðsins í Formúlu 1.

Tilkynnt var að Alonso færi yfir til McLaren rétt fyrir jól á síðasta ári, en þá gengu sögusagnir fjöllunum hærra að lið Renault hefði ekki í hyggju að vera með keppnislið til frambúðar.

"Ég vissi hreint ekki hvað þeir ætluðu að gera," sagði hinn 25 ára gamli Spánverji í samtali við ítalska fjölmiðla. "Ég gat ekki séð fram á að liðið væri ákveðið í að tryggja veru sína á toppnum til framtíðar á fjárhagslegum grundvelli," sagði Alonso, en liðsstjórinn Flavio Briatore hefur viðurkennt að það sé liðinu að kenna að það hafi misst heimsmeistarann úr sínum röðum.

"Ef liðið hefði geta sýnt fram á stöðugleika og skýra áætlun, hefði Alonso líklega aldrei farið og því má segja að þetta hafi bara verið spurning um óheppilegar tímasetningar," sagði Briatore.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×