Innlent

Heimsótti vin sinn haförninn

MYND/VÍSIR

Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir, Grundfirðingurinn ungi sem bjargaði haferni frá bráðum bana í fyrradag, kom í bæinn í dag til að heimsækja fiðraðan vin sinn sem hún hefur gefið nafnið Sigurörn.



Það voru hljóðir fagnaðarfundir þegar Sigurbjörg Sandra 12 ára gamall Grundfirðingur fékk að fara ofan í búið hjá Sigurerni, en honum bjargaði hún upp úr Kirkjufellslóni í fyrrakvöld. Sigurbjörg vildi ólm fá að fylgjast með líðan arnarins og fékk hún því móður sína að keyra frá Grundarfirði til að athuga hvort vel færi um hann Húsdýragarðinum það sem hann er nú í endurhæfingu.



Það er haft fyrir satt að það sé ekkert grín að lenda í arnarklóm og því fékk Sigurbjörg að kynnast. Hún þykir þó hafa sloppið vel og hefur fengið stífkrampasprautu. Óblíðar móttökur arnarins erfir hún ekki við hann.

Haförninn er ungur karlfugl úr syðsta arnarhreiðri landsins við Faxaflóa. Hann hefur komist í grút og á því von á mörgum þvottum á næstunni. En það er þó ekki það versta á hann vantar stélfjaðrirnar en stéllaus fugl getur ekki stýrt sér á flugi og þar með ekki bjargað sér í náttúrunni. Af þessum sökum er búist því því að örninn þurfi að dveljast í um tvö ár í Húsdýragarðinum. Ekkert annað virðist þó ama að erninum annað og því telur Tómas að allar líkur séu á því að hann geti fengið að spjara sig aftur í náttúrinnu að lokinni endurhæfingu.

Tómas Óskar Guðjónsson forstöðumaður Húsdýra- og Fjölskyldugarðsins áréttaði að ernir væru fáir og því vildi hann launa Sigurbjörgu lífgjöf arnarins með því að gefa henni og fjölskyldu hennar árskort í garðinn. Það ætlar Sigurbjörg að nota til að fylgjast með vini sínum, sem hún hefur tekið ástfóstri við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×