Innlent

Bónus með besta verðið

MYND/Heiða Helgadóttir

Bónus var oftast með lægsta verðið í verðkönnun sem ASÍ gerði á dögunum, en í meirihluta tilfella var aðeins einnar krónu munur á lægsta verði Bónuss og verði í Krónunni. Mikið vantaði upp á að vöruverð væri nógu vel merkt í sumum búðanna.

Bónus býður upp á lægsta vöruverðið á 29 af þeim 53 vörutegundum sem kannaðar voru. Nettó er með lægsta verðið í 10 tilvikum og Krónan í sjö tilvikum. Þetta segir hins vegar ekki alla söguna um verðið í verslununum, því í 20 af þeim 29 tilvikum þar sem Bónus er með lægsta verðið, munar aðeins einni krónu á verði þar og í Krónunni. Krónan er með lægra verð en Nettó á 29 af þeim 37 vörutegundum sem til eru í báðum búðunum.

Ellefu ellefu ber höfuð og herðar yfir aðrar verslanir hvað verðið snertir, 31 af 53 vörutegundum eru dýrastar þar. Tíu ellefu kemur þar á eftir, með hæsta verðið í 14 tilvikum og Nóatún er með hæsta verðið á 7 vörutegundum.

Mestur er verðmunurinn að jafnaði á brauði og kexi, mestur á Toffypops karamellukexi, sem kostar 98 krónur í Bónus en 219 krónur í ellefu ellefu, það er rúmlega 123 prósenta verðmunur.

Gripið og greitt stóð sig sýnu verst þeirra tólf stórverslana í að merkja vöruverð í hillu, merkingar vantaði á 10 af 53 vörutegundum og verslanir 10-11 og Krónunnar trössuðu merkingar á fimm vörum.

ASÍ segir slíkt brjóta í bága við lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og að það sé slæmt fyrir neytendur að fá ekki að vita fyrr en komið er á kassann hvað varan kostar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×