Innlent

Landsvirkjun íhugar áfrýjun vegna kröfu um umhverfismat við Þjórsárver

Landsvirkjun mun á næstunni skoða hvort dómi héraðsdóms um að hluti framkvæmda við Þjórsárver þurfi að fara í umhverfismat, verði áfrýjað.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær íslenska ríkið og Landsvirkjun af kröfum Áhugahóps um verndun Þjórsárvera og fleiri um að úrskurður Jóns Kristjánssonar setts umhverfisráðherra vegna Þjórsárvera verði felldur úr gildi í heild sinni. Hins vegar féllst héraðsdómur á þá kröfu að framkvæmdir við setlón norðan og vestan Þjórsárvera og veituskurður í Þjórsárlón þyrftu að fara í umhverfismat, og felldi þar með úr gildi úrskurð Jóns um það slíkt þyrfti ekki. Að sögn Þorsteins Hilmarssonar upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar er verið að skoða málið þar innanhúss. Skoðað verður hvort að ráðist verður í mat á umhverfisáhrifum þess hlutra framkvæmdarinnar sem dómur héraðsdóms kveður á um. Einnig verður skoðað hvort að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verður áfrýjað til Hæstaréttar, en ákvörðun um það ætti að liggja fyrir innan fjögurra vikna. En það koma auðvitað fleiri að málinu, íslenska ríkið og svo stefnendur. Að sögn Katrínar Theódórsdóttur lögmanns Áhugahóps um verndun Þjórsárvera og fleiri hafa umbjóðendur hennar ekki tekið afstöðu til þess hvort dómi héraðsdóms verði áfrýjað. Hún bendir á að sá þáttur úrskurðar setts umhverfisráðherra sem héraðsdómur felldi úr gildi hafi verið hvað mikilvægastur og að menn vonist til að leiði til þess að hætt verði við framkvæmdirnar alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×