Innlent

Rætt um mikilvægi þess að ná samstöðu um framtíð Íbúðalánasjóðs

MYND/Vísir

Forsætisráðherra átti fund með forsvarsmönnum bankanna í gær um íbúðalán. Hann segir mikilvægt að samstaða náist um nýtt fyrirkomulag á Íbúðalánasjóði. Stefnt sé að því að frumvarp um nýtt hlutverk sjóðsins verði tilbúið í haust.

Breytingar á Íbúðalánasjóði hafa verið í umræðunni um nokkurt skeið og hefur verið rætt um að Íbúðalánasjóður verði heildsölubanki og hætti almennum útlánum. Stýrihópur félagsmálaráðherra um framtíð Íbúðalánasjóðs lagði í apríl til í áfangaáliti hvernig hægt væri að standa að breytingunni.

Hugmyndirnar gengu út að að ríkisábyrgð sjóðsins yrði afnumin og þjónustan færð til bankanna án þess þó að félagslegu hlutverki sjóðsins yrði fórnað. Íbúðalánasjóður myndi gefa áfram út íbúðabréf en bankarnir afgreiða lánin og fá þóknun fyrir.

Forsvarsmenn bankanna hafa gagnrýnt tillögurnar og sagt að ekki væri verið að nálgast málið á eðlilegum forsendum.

Í gær fundaði Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, með forsvarsmönnum Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um málið.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis banka og formaður stjórnar SBV, Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans og varaformaður stjórnar SBV og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna sátu fundinn.

Halldór Ásgrímsson segir fundinn hafa verið haldinn að beiðni samtakanna. Fundurinn hafi verið góður og jákvætt að bankarnir hafi komið saman þar sem þeir hafi ekki verið algjörlega samstíga í málinu.

Halldór bindur miklar vonir um að hægt sé að mynda samtöðu um málið en stefnt sé að því að frumvarp um nýtt hlutverk Íbúðalánasjóð verði tilbúið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×