Innlent

Sjálfstæðirmenn og Framsókn funda í Árborg

Slitnað hefur upp úr viðræðum vinstri flokkanna í Árborg um myndun meirihluta í bæjarfélaginu. Sjálfstæðismenn hafa þegar hafið viðræður við Framsóknarmenn um meirihlutasamstarf. Upp úr viðræðunum slitnaði þegar ekki náðist samkomulag um málefni skólans á Eyrabakka og Stokkseyri en Samfylking og Framsókn vildu áfram haldandi uppbyggingu hans á meðan Vinstri grænir höfðu aðrar hugmyndir.

Viðræður milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru þegar hafnar og heimildir fréttastofu herma að Sjálfstæðismenn og Samfylking séu einnig að undirbúa viðræður. Vinstri grænir bíða hins vegar átekta en þeir munu fara yfir stöðu mála á fundi í kvöld. Líklegt þykir að Samfylking og Framsókn fari fram á það í viðræðum sínum við Sjálfstæðismenn að Eyþór Arnalds víki alfarið úr bæjarstjórn en Vinstri grænir hafa þegar sett fram þá kröfu fyrir meirihlutasamstarfi við flokkinn. Hvorki Ragnheiður Heirgeirsdóttir, oddviti Samfylkingar í Árborg, né Þorvaldur Guðmundsson, oddviti Framsóknar vildu staðfesta slíka kröfu og sögðu málið á viðkvæmu stigi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×