Innlent

Ekkert amar að Íslendingunum í Kabúl

Ekkert amar að tíu Íslendingum sem eru að störfum í Kabúl, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu, en minnst átta manns hafa fallið og rúmlega hundrað slasast í átökum í borginni í dag. Til þeirra kom eftir umferðarslys sem varð minnst þremur að bana. Svo virðist sem bandarískur herbíll hafi átt þátt í árekstrinum.

Mótmælendur hafa gengið fylktu liði að forsetahöllinni í Kabúl og sendiráði Bandaríkjamanna þar sem afsögn Hamid Karzais forseta er krafist. Mörg hundruð afganskir hermenn og friðargæsluliðar Atlandshafsbandalagsins eru í viðbragðsstöðu víða um borgina.

Sex Íslendingar eru á vegum fjölþjóðahersins í Afganistan og þrír á vegum Flugmálastjórnar. Þeir eru allir staðsettir á Kabúl-flugvelli sem er víggirt bækistöð utan við borgina. Til viðbótar er íslenskur ráðgjafi við aðalstjórn fjölþjóðaliðsins í Kabúl. Hann er staðsettur í borginni sjálfri en er ekki í hættu að sögn ráðuneytisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×