Innlent

Dræm kjörsókn í Reykjavík í morgun

Dræm kjörsókn hefur verið í Reykjavík í morgun og kosningarnar farið rólega á stað. Fyrir hádegið var kjörsókn tæp sjö prósent. Oddvitar flokkanna mættu á kjörstað fljótlega eftir að dyrnar voru opnaðar klukkan níu í morgun. Hátt í áttatíu og sexþúsund manns eru á kjörskrá í Reykjavík. Hægt er að kjósa á þrettán stöðum og opnuðu kjörstaðir klukkan níu í morgun og verða opnir til klukkan tíu í kvöld. Að sögn Ástráðs Haraldssonar, formanns kjörstjórnar, hefur kosningin farið frekar rólega á stað og allt gengið vel. Fyrir hádegið höfðu 6,78% kosið sem er fremur dræm þátttaka en á sama tíma í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 voru 8,33% kjósenda búnir að kjósa.



Á tólfta þúsund manns hafa kosið utankjörfundar hjá Sýslumannsembættinu í Reykjavík. Þetta eru mun fleiri en kusu alls utankjörfundar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Alls kusu þá um átta þúsund og sex hundruð manns utankjörfundar hjá sýslumanninum í Reykjavík. Í dag geta kjósendur utan af landi greitt þar atkvæði til klukkan sex en þeir þurfa samt sjálfir að koma atkvæði sínu til skila.



Oddvitar stóru framboðanna í Reykjavík tóku daginn snemma. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, var mættur á slaginu níu í íþróttamiðstöðina í Austurbergi til þess að greiða atkvæði. Hann var sjálfsögðu ánægður eftir að hafa komið sínu atkvæði í kjörkassann.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinna, var ekki mikið seinna á ferðinni en hálf tíma síðar eða hálf tíu mætti hann í Ráðhús Reykjavíkur til að koma sínu atkvæði til skila.

Á sama tíma var Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslyndaflokksins, að greiða atkvæði í Breiðagerðisskóla.

Björn Ingi Hrafnsson, oddiviti Framsóknarflokksins í borginni, fór svo klukkan tíu í Ölduselsskóla þar sem hann greiddi atkvæði ásamt konu sinni.

Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri-grænna, var sú eina af oddvitunum sem ekki kláraði að kjósa í morgun en hún ætlar sér að mæta nú um hádegi á kjörstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×