Innlent

Mótmæli gegn frístundabyggð Orkuveitunnar við Úlfljótsvatn

Úlfljótsvatn
Úlfljótsvatn MYND/Gunnar V. Andrésson

Hópur sem lætur sér framtíð og náttúru Úlfljótsvatns varða afhenti í dag borgarstjóra mótmæli gegn fyrirhuguðum framkvæmdum Orkuveitunnar við Úlfljótsvatn.

Orkuveita Reykjavíkur hyggst hluta land ofan Úlfljótsvatns niður í 6-700 lóðir og selja undir heilsárshús. Hópurinn telur þessar framkvæmdir þrengja um of að starfsemi á svæðinu og ógna lífríkinu. Auk þess sé jörðin Úlfljótsvatn eign almennings og Orkuveitunni hafi aðeins verið falið að gæta hennar.

Að sögn Bergs Jónssonar, forsvarsmanns hópsins, hefur svæðið í kringum Úlfljótsvatn fengið alþjóðlegar tilnefningar sökum hversu fagurt það er og sérstætt. Úlfljótsvatnssvæðið eigi að nýta sem útivistarsvæði fyrir almenning, ekki bara þá sem hafa efni á lóðunum.

Hópurinn myndaðist þegar áhugasamir fóru að kynna sér framkvæmdirnar og áhrif þeirra á lífríki vatnsins og umhverfi þess. Komið var á fót bloggsíðu þar sem hægt var að taka þátt í skoðanakönnun og skrifa í gestabók. Bergur afhenti í dag Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra skoðanakönnunina og gestabókina ásamt rökstuðningi fyrir mótmælunum.

Þegar borgarstjóri tók við mótmælunum sagði hún framkvæmdirnar vera mjög umfangsmiklar og jafnvel um of. Hin fyrirhugaða byggð væri mjög þétt og jafnvel kæmi til greina að minnka stærð framkvæmdinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×