Erlent

Dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir gíslatöku í Rússlandi

Nur Pashi Kulayev hlýddi alvörugefinn á dómsuppskurðinn inni í glerbúri.
Nur Pashi Kulayev hlýddi alvörugefinn á dómsuppskurðinn inni í glerbúri. MYND/AP

Téténskur aðskilnaðarsinni, sem ásamt öðrum, hélt 1.000 börnum í gíslingu í skóla í Beslan í Rússlandi árið 2004, var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi. 330 manns létu lífið í gíslatökunni.

Nur Pashi Kulayev, er sá eini af 32 téténskum aðskilnaðarsinnum sem héldu fólkinu föngnu, sem enn er á lífi. Dómarinn sagði að helst hefði átt að taka hann af lífi fyrir verknaðinn, en þar sem dauðarefsingar væru ólöglegar í Rússlandi, væri hann aðeins dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Úrskurðurinn er hápunktur árslangra tilfinningaríkra réttarhalda. Svartklæddar mæður fórnarlamba biðu fyrir utan dómshúsið með myndir af fórnarlömbum og áróðursborða þar sem stjórnvöldum var kennt um ófarirnar og að þeim yrði aldrei fyrirgefið. Þegar Kulayev var leiddur í burtu reyndu sumar þeirra að ráðast á hann, aðrar grétu og börðu á glerklefann.

Þrjú hundruð og þrjátíu manns létu lífið í gíslingunni, langflest af hinum látnu voru börn. Skotið var á fólkið, auk þess sem sprengjur voru sprengdar.

Margir hafa orðið til að gagnrýna það að svo margir þungvopnaðir menn hafi komist fram hjá öryggiseftirliti og náð svo mörgum á sitt vald. Margir þorpsbúa telja ekki öll kurl komin til grafar, og segja réttarhöldin yfir Kulayev hafa verið blásin upp til að leyna mistökum stjórnvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×