Innlent

Gjaldskyld bílastæði við Landspítalann

Þeir sem heimsækja Landspítalann við Hringbraut eða í Fossvogi á næstu vikum mega eiga von á stöðumælasekt ef þeir leggja í stæði nærri aðalbyggingunum án þess að greiða fyrir. Framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs segir stöðumælum komið þar upp að ósk stjórnenda spítalans sem vilja tryggja sjúklingum og aðstandendum þeirra betra aðgengi að spítalanum.

Flestir þeir sem heimsótt hafa sjúkrahúsin þekkja hve erfitt getur verið að finna stæði í nærri inngöngunum. Á þessu vilja stjórnendur spítalanna ráð bót með því að stýra nýtingu bílastæðanna með gjaldskyldum stæðum. Um er að ræða 120 stæði við Landspítalann við Hringbraut og um 30 stæði í Fossvogi.

Aðspurður hvort ekki skjóti skökku við að taka bílastæðagjald af þeim sem koma á spítalann vegna veikinda sinna eða nákominna segir Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, að stjórntækið gjaldskylda fyrir bílastæði fari ekki í manngreinarálit. Með þessu hafi allir jafnan möguleika á að komast að. Þetta fyrirkomulag hafi virkað ákaflega vel í borginni frá 1957 og að hans mati sé það mjög réttlátt og vel virkt stjórntæki.

Þegar fréttastofa NFS leitaði viðbragða hjá fólki sem lagt hafði á bílastæðinu við Landspítalann við Hringbraut komu í ljós ákaflega misjöfn viðbrögð. Sumir bentu á að það hefði tíðkast lengi að vera með gjaldskyld bílastæði við sjúkrahús í útlöndum og því ætti slíkt hið sama ekki að gilda hér. Aðrir sögðu að þetta gæti orðið fólki kostnaðarsamt fljótt, sérstaklega ef fólk þyrfti að stoppa í nokkra klukkutíma á spítalanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×