Innlent

Foreldrar og vinir mikilvægastir fyrir vellíðan skólabarna

Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein MYND/Róbert Reynisson

Yfirgnæfandi meirihluta grunnskólabarna í 5. til 7. bekk í Reykjavík líður vel í skóla. Samvera barna og foreldra virðist hafa mest að segja um líðan barnanna. Þetta kom fram í dag í kynningu Menntasviðs Reykjavíkurborgar á niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal rúmlega 4000 grunnskólabarna vorið 2005.

Í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að um 78% svarenda leið vel eða mjög vel, um 15% leið hvorki vel né illa og einungis um 7% nemenda leið illa eða mjög illa. Líðan stráka var betri en stelpna og hlutfall þeirra sem sagðist líða vel hækkaði með aldri.

Sterk tengsl voru milli líðanar nemendanna og samveru þeirra við fjölskyldu sína. Þessi samvera var t.d. að tala saman, læra saman eða horfa saman á sjónvarpið. Eftir því sem nemendurnir voru eldri hafði samvera við vinina meiri fylgni við líðan og fór fram úr samveru við foreldra. Hjá börnunum kom fram mikil eftirspurn eftir hrósi frá kennurum. Stríðni hafði neikvæð áhrif á líðan nemenda og virðist stríðni vera algengari hjá yngri nemendum en þeim eldri.

Skólar Reykjavíkurborgar fá sendar niðurstöður sínar á næstu dögum og fá þannig nákvæmari upplýsingar um líðan nemenda sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×