Erlent

Bausch & Lomb innkallar linsuvökvann

Framleiðendur Renu MoistureLoc, mest selda linsuvökva á Íslandi, og í heiminum öllum, hafa ákveðið að stöðva dreifingu hans og innkalla útistandandi birgðir. Óttast er að hann geti undir ákveðnum kringumstæðum valdið hornhimnubólgu sem aftur getur leitt til blindu.

Rúmur mánuður er síðan greint var frá því að hugsanleg tengsl væru á milli notkunar á Renu MoistureLoc-linsuvökva, frá bandaríska lyfjafyrirtækinu Bausch & Lomb, og hornhimnubólgu í augum. 122 notendur vökvans í 33 löndum hafa fengið þessa illvígu augnsýkingu undanfarin misseri og verið er að rannsaka 75 til viðbótar. Sýkingin er frekar talin stafa af rangri notkun vökvans en efnum í honum sjálfum, en þegar verst lætur getur hún leitt til alvarlegra skemmda á hornhimnunni og jafnvel blindu. Því hefur fyrirtækið ákveðið að hætta á honum sölu og innkalla birgðir, meðal annars hér á Íslandi. Dreifendur Renu-vökvans benda á að vökvinn sem seldur er hérlendis sé ekki framleiddur í sömu verksmiðju og sá sem fer á Bandaríkja- og Asíumarkað, þar sem tilfellin hafa komið upp, og að innköllunin sé að þeirra eigin frumkvæði en ekki landlæknis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×