Erlent

Prodi kynnir ríkisstjórn sína

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, kynnti ríkisstjórn sína í dag. Hennar bíður erfitt verkefni við að koma efnahag landsins á réttan kjöl.

Rúmur mánuður er síðan Ólívubandalag Prodis sigraði hægrifylkingu Silvios Berlusconi naumlega í ítölsku þingkosningunum. Ágreiningur um úrslit þeirra og forsetaskipti í landinu hafa hins tafið verulega fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í gær fékk Prodi hins vegar umboð til stjórnarmyndunar frá nýja forsetanum Napolitano og hann beið ekki boðanna heldur kynnti hann ráðuneyti sitt í morgun. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar sitja í nýju stjórninni, kommúnistinn Massimo D'Alema verður utanríkisráðherra og sósíalistinn Giuliano Amato fer í innanríkisráðuneytið.

Ekki er víst að nýja stjórnin sé eins samhent og Prodi vill láta í veðri vaka því að henni standa fjölmargir flokkar sem standa fyrir ólíkum stefnumál. Ráðherrarnir hafa líka eitt og annað til að rífast yfir því efnahagsástandið á Ítalíu er afar erfitt og hagvöxtur nánast enginn. Nákvæmlega áratugur er liðinn frá því að síðasta ríkissstjórn Prodis tók við völdum. Valdatíð hennar var aðeins tvö ár - sem þykir reyndar býsna gott á Ítalíu - en þá missti hún meirihluta sinn á þingi eftir að kommúnistar létu af stuðningi sínum við hana.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×