Erlent

Mills og McCartney skilin

Bítillinn Paul McCartney og Heather Mills, eiginkona hans, hafa ákveðið að skilja að borði og sæng eftir fjögurra ára hjónaband. Þau segja ágang fjölmiðla hafa gert sér ókleift að lifa eðlilegu lífi og því ætli þau að fara hvort sína leið.

Bresku blöðin slógu fréttunum af skilnaði þeirra McCartney og Mills upp með stríðsletri í morgun enda er Bítillinn með afbrigðum vinsæll í landinu og raunar um heim allan. Umfjöllunin er kaldhæðnisleg í ljósi þess að í yfirlýsingu þeirra hjónakornanna er ágangur fjölmiðla er einmitt sögð ástæða þess að þau ætli að slíta samvistir þar sem hann hafi gert þeim ókleift að eiga eðlilegt hjónaband. Allar götur síðan þau gengu að eiga hvort annað fyrir fjórum árum hafa útsendarar götublaðanna fylgt þeim hvert fótmál og Mills hefur lengi verið sökuð um að skipta sér af hverju því sem eiginmaður sinn tekur sér fyrir hendur. Á sínum tíma hafnaði McCartney því að gera kaupmála við Mills og því á hún rétt á helmingi auðæfa Bítilsins. Þau eru metin á 110 milljarða króna og því ljóst að peningar eru nokkuð sem hún þarf ekki að hafa áhyggjur af í framtíðinni. Bítillinn kynntist Mills árið 1999 í gegnum góðgerðarsamtök sem hún setti á laggirnar eftir að hafa misst annan fótinn í vélhjólaslysi árið 1993. Þau eiga eina dóttur, Beatrice, sem er á þriðja ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×