Erlent

Ofsatrúarmaður skaut dómara

Íslamskur öfgamaður réðst inn í réttarsal í Ankara í Tyrklandi í morgun og skaut á dómara. Hann er sagður hafa viljað hefna fyrir dóm yfir kennurum sem bannað var að bera íslamska höfuðklúta.

Að vonum greip um sig mikil skelfing í dómsstólnum í Ankara, höfuðborg Tyrklands, þegar byssumaðurinn hóf skothríðina. Fimm dómarar urðu fyrir kúlum hans og hefur að minnsta kosti einn þeirra látist af sárum sínum. Á meðan maðurinn vann illvirkið hrópaði hann Allahú Akbar, eða Guð er mikill. Það er enginn tilviljun því eftir því sem næst verður komist var þarna á ferðinni íslamskur öfgamaður sem með tilræðinu vildi hefna sín á dómurunum sem fyrr á þessu ári bönnuðu kennurum við grunnskóla að bera höfuðslæður, jafnvel utan vinnutíma. Þótt 99% Tyrkja séu múslimar ríkir alger aðskilnaður á milli ríkis og trúarstofnana. Opinberum starfsmönnum er óheimilt að bera trúarleg tákn á borð við slæður. Recep Erdogan forsætisráðherra fordæmdi árásina í morgun en hann gagnrýndi líka dóminn á sínum tíma enda hefur ríkisstjórn hans í hyggju að afnema lögin sem banna höfuðslæður í opinberum byggingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×