Erlent

Þjóðvarðliðar að landamærum

George Bush, Bandaríkjaforseti.
George Bush, Bandaríkjaforseti. MYND/AP

Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi að hann ætlaði að senda allt að 6000 þjóðvarðliða til landamæranna að Mexíkó og er það liður í nýrri áætlun sem miðar að því að stemma stigu við straumi ólöglegra innflytjenda frá Mexíkó til Bandaríkjanna.

Bandaríkjaforseti kynnti áætlun sína í sjónvarpsávarpi. Samkvæmt henni verða veitt sérstök tímabundin vinnuleyfi auk þess sem einhverjum ólöglegum innflytjendum verður gert mögulegt að öðlast bandarískan ríkisborgararétt og þeir hvattir til að aðlagast samfélaginu og læra ensku. Þjóðvarðliðarnir verða við landamærin í eitt ár en á meðan verði fleiri landamæraverðir þjálfaðir til starfa. Gæslustöðvum við landamærin verður fjölgað og málsmeðferð hraðað svo hægt verði að vísa ólöglegum innflytjendum fyrr úr landi.

Talið er að 11,5 milljón ólöglegra innflytjenda sé nú í Bandaríkjunum, helmingur þeirra frá Mexíkó. Stjórnvöld þar segjast hafa áhyggjur af þessum aðgerðum og of lítið sé gert til að breyta löggjöfinni samhliða flutningi þjóðvarðliða á svæðið.

Stjórnmálaskýrendur segja aðgerð Bandaríkjastjórnar lítið annað en plástur á meinið - Bandaríkjaforseti sé að reyna að höfða til harðra Repúblíkana sem vilji hertar aðgerðir og þeirra fjölmörgu afkomenda ólöglegra innflytjenda sem búi í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×