Erlent

Óttast um á fjórðu milljón manna í Darfur

Óttast er um afdrif þriggja og hálfrar milljónar manna í Darfúr héraði í Súdan, eftir að mataraðstoð Sameinuðu þjóðanna var skorin niður um helming. Mikill þrýstingur er á stríðandi fylkingar að semja um frið. Frá og með þessum mánuði fær fólk í flóttamannabúðum í Darfur ekki nema 1.050 kílókaloríur á dag en 2.100 er algjört lágmark. Þrátt fyrir vopnahléssamninga sem voru gerðir árið 2004, vaða skæruliðahópar uppi víða um héraðið, myrða, nauðga, brenna og stela. Ein kona sem fréttamenn hittu hafði safnað eldiviði í þrjá mánuði og ætlaði síðan á markað að selja hann á um þrjú þúsund krónur, sem er talsvert fé í Darfur. En skæruliðar réðust á hana á leiðinni, misþyrmdu henni og stálu eldiviðnum. Eftirlitsmenn frá Afríkubandalaginu eru á staðnum en eru vanbúnir til að grípa inn í deilurnar. Framundan er hungurtíminn, frá júlí til september, þegar matarskortur er viðvarandi - og ekkert bendir til að ástandið batni neitt þangað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×