Erlent

Íbúar við Merapi snúa aftur þrátt fyrir ótta um aukna gosvirkni

Tugir íbúa sneru aftur til heimkynna sinna við eldfjallið Merapi í Indónesíu í morgun, þrátt fyrir ótta um að eldgosið í fjallinu eigi eftir að færast verulega í aukana.

Ljósasýningarnar í Merapi verða stöðugt bjartari eftir því sem gosið færist í aukana. Vísindamenn segja að fjallið sé eins og flaska sem verið er að taka korkinn út; það er byrjað að frussa upp úr en sjálft gosið þegar tappinn skýst upp er eftir. Glóandi hraunbjörgin sem velta niður hlíðarnar ættu að duga til að halda fólki í burtu en margir þeirra 22 þúsund manna sem búa innan við átta kílómetra frá fjallinu vilja ekki yfirgefa skepnur sínar og akra.

Tugir manna, sem voru komnir burt, reyndu í morgun að komast aftur til síns heima. Þetta eru bláfátækir bændur og aleiga þeirra er í kofum, ræktarlandi og búfénaði. Einn gamall maður sem fréttamenn hittu sagði einfaldlega:„Ég ber ábyrgð á því að mjólka kýrnar og slá grasið. Það er ekki hægt að skorast undan sinni ábyrgð."

Fjallið hefur nú bókstaflega rifnað og komin er löng sprunga niður úr keilunni. Grár reykur stígur upp úr sprungunni. Síðast þegar Merapi gaus - árið 1994 - létust sextíu manns af völdum eldgass sem gaus út úr fjallinu. Árið 1930 létust 1.300 manns í eldgosi í Merapi.

Samkvæmt þjóðtrúnni er konungdæmi stjórnað úr keilunni á Merapi en það konungdæmi er ekki þessa heims. Það eru hins vegar kýrnar, pálmatrén og akrarnir og því leggja fátækir bændur kapp á að sinna þeim þrátt fyrir augljósa hættuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×