Erlent

Rússnesk stríðstól á leið út úr Georgíu

Tugir tonna af rússneskum stríðstólum eru nú á lestarvögnum út úr Georgíu. Rússar hafa verið með bækistöðvar í Georgíu síðan landið fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum fyrir tæpum fimmtán árum.

Herir þeirra hafa stutt aðskilnaðarsinna í Abkasíu og Suður-Ossetíu þó að í orði kveðnu sé vera hins rússneska liðs á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í mars sömdu stjórnir landanna um brottflutning rússneska hersins frá Georgíu og hann er að hefjast. Þessir bryndrekar verða komnir til Rússlands á morgun. Rússneski herinn í Georgíu er jafn illa búinn og annars staðar og það tefur brottflutninginn.

Áætlað er að stríðstólin í Akhalkalaki-herstöðinni verði öll farin frá Georgíu í október á þessu ári. Lengri tíma tekur að tæma aðra herstöð og ekki er búist við að vopnin verði öll komin til síns heima fyrr en undir lok næsta árs. Georgíumenn vonast til að fá inngöngu í Atlantshafsbandalagið einhvern tíma - og sjá brottflutning rússneska hersins sem mikilvægan áfanga á þeirri leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×