Erlent

Sjónvarpsstöð fyrir ungabörn

Sjónvarpsstöð fyrir ungabörn hóf útsendingar í Bandaríkjunum í dag. Þetta er fyrsta stöð sinnar tegundar en markhópurinn er börn yngri en tveggja ára.

BabyFirstTV sendir út efni allan sólahringinn og hefur vakið miklar deilu. Bandarískir barnalæknar segja hana til óþurftar, réttast sé að halda ungabörnum alfarið frá sjónvarpinu. Sérfræðingar telja að sjónvarpsgláp hjá börnum sem eru yngri en tveggja ára hafi áhrif á hve lengi þau eru að læra að tala og hve vel þeim gangi að hafa samskipti við önnur börn.

Framleiðendur fræðsluefnis eru þó á annarri skoðun og hafa átt í deilum við samtök bandarískra barnalækna sem hafa lagt formlega kvörtun fyrir viðskiptaráð þar í landi.

Rannsókn sem birt var fyrir þremur árum sýndi að tæp 70% bandarískra barna á áðurnefndum aldri horfðu þá á sjónvarp eða myndband einhvern hluta hvers dags og tæp 30% barnanna voru þá með sjónvarp í herbergjum sínum.

Ekki eru þó allir ósáttir við framtak þeirra sem reka nýju stöðina og fylgir sögunni að stjórnendur Walt Disney fyrirtækisins og framleiðendur Sesame Street þáttanna fylgjast grant með því hvernig stöðinni á eftir að vegna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×