Erlent

Börn mótmæltu við höfuðstöðvar SÞ á Gaza

MYND/AP

Tugir palestínskra barna reistu tjald fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna á Gaza-svæðinu í dag til þess að mótmæla því sem þau kalla efnahagslegt umsátur um palestínskt land.

Efnahagur palestínsku heimastjórnarsvæðanna er í raun hruninn, eftir að Bandaríkin og Evrópusambandið hættu efnahagsaðstoð við ríkisstjórn Hamas, og Ísraelar hættu að skila 55 milljón dollurum sem þeir innheimta, mánaðarlega, í tollum og öðrum gjöldum, fyrir palestínsku heimastjórninni.

Börnin sem mótmæltu fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, á Gaza, í dag, báru spjöld þar sem þau báðu um aðstoð. Sum höfðu líka málað slagorð á líkama sinn.

Heimastjórnin hefur ekki getað greitt yfir 160 þúsund opinberum starfsmönnum laun sín í marga mánuði. Fólk hefur því þurft að ganga á sparifé sitt, eða fá lán, til þess að draga fram lífið. Kaupmenn þurfa að kaupa út á krít, bensínstöðvar hafa ekkert eldsneyti og kennarar eru að fara í verkfall, vegna ógreiddra launa.

Starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana segja að heilbrigðiskerfið sé að hruni komið, og þoli ekki þetta ástand lengur. Lífið hefur löngum verið Palestínumönnum erfitt, en hjálparstofnanirnar segja að nú keyri um þverbak. Mörgum finnist sem umheimurinn hafi snúið baki við þeim, og það ríkir vonleysi meðal almannings.

Það kemur auðvitað ekki síst niður á börnunum, sem þurfa bæði að búa við mikinn skort, og upplifa vonleysi og örvæntingu foreldranna, sem ekki geta séð börnum sínum farboða.

Ísraelar hafa ljáð máls á því að greiða hluta af því skattfé sem þeir hafa innheimt fyrir Palestínumenn, til þess að draga úr neyðinni. Þeir peningar megi þó ekki fara um hendur Hamas stjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×