Erlent

Mannfall, hörmungar og ógæfa

Bandaríkjamenn hafa ekkert uppskorið nema mannfall, hörmungar og ógæfu af innrásinni í Írak. Þetta segir Ayman al-Zawari, næstráðandi al-Kæda í landinu. Fyrrverandi yfirmaður við Abu Ghraib fangelsið hefur verið ákærður vegna pyntinga og annarra mannréttindabrota við fangelsið.

Sextán mínútna upptaka, þar sem Ayman al-Zawari hrósar árásarmönnum í Írak fyrir að hafa hryggbrotið bandaríska herinn, birtist á heimasíðu herskárra samtaka í gær. Bara al-Kæda hafi framið átta hundruð sjálfsmorðsárásir á þremur árum og við það bætist svo árásir annarra hópa. Þetta hafi gert það að verkum að bandaríski herinn sé að uppgjöf kominn.

Hvað sem allri uppgjöf líður er ljóst að Abu Ghraib fangelsið er í hugum margra tákn um allt það sem hefur farið úrskeiðis í Írak. Steve Jordan, sem lengi vel fór fyrir yfirheyrslum við fangelsið, var ákærður í gær. Hann er æðsti embættismaðurinn sem hefur verið ákærður vegna mannréttindabrotanna. Ákæran gegn honum er í sjö liðum og hann sakaður um að hafa misþyrmt föngum og meðhöndlað þá með grimmilegum hætti. Tíu fyrrverandi undirmenn hans hafa auk þess verið ákærðir fyrir illa meðferð á föngum við Abu Ghraib.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×