Erlent

Göngugarpur rekinn frá Rússlandi

Breskur göngugarpur og bandarískur ferðafélagi hans voru gerðir burtrækir frá Rússlandi í dag eftir að hafa gengið og synt yfir Beringssundið milli Alaska og Síberíu. Karl Bushby er 36 ára fyrrum fallífahermaður í breska hernum. Dómstóllinn í Tsjúkotka í Síberíuhluta Rússlands gaf honum og félaga hans, Bandaríkjamanninum Dimitry Kieffer, tíu daga til að yfirgefa landið. Þeir hafa vegabréfsáritun til Rússlands en við gönguna yfir Bering sundið bar þá af leið og því hittu þeir ekki á landamærastöðina í Uelen þegar þeir stigu á land í Rússlandi. Ingi R. Ingason kvikmyndatökumaður hefur verið að vinna með breska sjónvarpinu BBC að heimildamynd um Bushby. Hann fylgdi honum áleiðis yfir Bering sund í síðasta mánuði. Ingi segir að Bushby og félagi hans hafi þurft að vaða í krapi og synda yfir vakir á leið sinni yfir sundið. Bushby hóf för sína á suðurenda Rómönsku Ameríku fyrsta nóvember 1998 - fyrir átta árum. Nú er hann búinn að ganga upp Ameríku, Suður- og Norður, og var að hefja Asíuför sína þegar hann var tekinn fyrir ólöglega landgöngu í Rússlandi. Næst ætlaði hann að ganga yfir þvera Asíu - Mongólíu, Kasakstan og Rússland - þá yfir meginland Evrópu og ljúka ferðinni í heimabæ sínum Hull árið 2009, eftir þrjú ár. En dómarar í Chukotka eru ekki á því að hleypa honum í gegnum Rússland án stimpils landamæravarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×