Erlent

Kosningaþátttaka í Ísrael aldrei minni

Ehud Olmert, leiðtogi Kadima-flokksins.
Ehud Olmert, leiðtogi Kadima-flokksins. MYND/AP

Kosningaþátttaka í ísraelsku þingkosningunum sem fram fóru í gær, er sú allra minnsta í sögu landsins. Kadima-flokkurinn bar sigur af hólmi, hann náði þó ekki meirihluta og mun að öllum líkindum mynda samsteypustjórn með Verkamannaflokknum.

Aðeins 63,2 prósent kosningabærra manna greiddu atkvæði sem er 5,7% minna en árið 2003. Kadima, flokkur Ehuds Olmerts, sitjandi forsætisráðherra landsins, fór með sigur af hólmi en hann hlaut þó ekki næg atkvæði til að sitja einn í ríkisstjórn. Flokkurinn fékk tuttugu og átta þingsæti. Þá fékk Verkamannaflokkurinn 20 sæti á þingi en Likud-bandalagið aðeins ellefu. Alls eru eitt hundrað og tuttugu sæti eru á ísraelska þinginu.

Talið er víst að Olmert fái stuðning Verkamannafloksins og flokkarnir myndi samsteypustjórn með einhverjum af smáflokkunum á þinginu en alls bauð 31 flokkur fram í kosningunum. Fyrir kosningarnar var val kjósenda afar skýrt. Kadimaflokkurinn og Verkamannaflokkurinn vildu rýma minni landnemabyggðir og semja við Palestínumenn en fyrir kosningar hét Olmert því að landamærin yrðu ákveðin fyrir 2010.

Málamiðlanir við Palestínumenn sögðu forsvarsmenn Likud-bandalagsins og annarra hægri flokka hins vegar ekki koma til greina og sáttatónn ekki eins sterkur og hjá Kadima. Kadima-flokkurinn var stofnaður af forsætisráðherra landsins, Ariel Sharon, sem nú liggur í dauðadái á spítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×