Tveir létust í miklu óveðri í norðurhluta Þýskalands í gær. 300 þúsund manns voru án rafmagns í Hamburg.
Veðurguðirnir létu heldur betur til sín taka í Þýskalandi í gær. Í Hamburg var aftakaveður og mikill vindur. Tveir menn létust þegar kranar sem þeir voru að vinna á féllu í borginni í gærkvöldi. Ökumenn komust margir í hann krappann, enda slökknaði á umferðarljósum um tíma, auk þess sem svo hvasst var að margir héldust ekki á vegum.
Kyrrstæðir bílar fuku sumir hverjir og komu bílstjórarnir að þeim á hvolfi. Þá héldust illa gerð þök ekki á húsum og rúður brotnuðu víða.
Rafmagn fór af á stóru svæði og um tíma voru 300 þúsund manns án ramfagns í Hamburg. Þá þurfti að loka lestarkerfi borgarinnar alveg, eftir að eldingu laust niður á lestarteina.
Björgunarsveitir og slökkviliðsmenn unnu í alla nótt hörðum höndum að því að þrífa drasl af götum. Ekki liggur fyrir hve miklu fjárhagslegu tjóni óveðrið olli, en ljóst er að það skiptir hundruð milljónum íslenskra króna.