Erlent

Sækist eftir hæli í vestrænu ríki

Abdul Rahman.
Abdul Rahman. MYND/AP

Afganskur maður, sem átti yfir höfði sér dauðadóm fyrir að snúa sér frá islamstrú til kristni, sækist nú eftir hæli í öðru landi. Máli gegn honum var vísað frá dómi í gær og í dag var ljóst að hann yrði látinn laus úr fangelsi.

Dómstóll í Afganistan vísaði máli Abdul Rahmans frá í gær vegna skorts á sönnunargögnum. Rahman hafði fyrir nokkru snúið frá Islam til kristni. Talið var að saksóknarar myndu ákæra aftur í málinu en á meðan yrði Rahman látinn laus. Einhver óvissa var þó um það hvort svo yrði og jafnvel talið að hann yrði látinn dúsa í fangelsi eitthvað lengur.

Samkvæmt sjaría-lögum múslima liggur dauðarefsing við því að snúa sér til kristni og var það mat afganskra fræðimanna að ekkert svigrúm væri til að túlka lögin á annan hátt.

Bandarísk yfirvöld greindu síðan frá því íd ag að Rahman yrði látinn laus og nokkru síðar lýsti fulltrúi Sameinuðu þjóðanna því yfir að Rahman hefði óskað eftir hæli í einhverju vestrænu ríki. Saksóknari hefur krafist þess að Rahman gangist undir geðrannsókn til að hægt verði að skera úr um hvort hægt verði að rétta yfir honum að nýju.

Sú ákvörðun að vísa máli Rahman frá og láta hann lausan hefur vakið mikla reiði meðal margra Afgana. Þarlendir klerkar og námsmenn voru meðal þeirra sem gengu um götur Mazar-i-Sharif í Norður-Afganistan til að mótmæla ákvörðuninni.

Fjölmargir klerkar hafa hótað því að hvetja Afgana til að myrða Rahman þegar hann verður látinn laus þar sem hann sé sekur og eigi skilið að deyja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×