Erlent

Kært vegna SMS-skilaboða

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands.
Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands. MYND/AP

Forsætisráðherra Finnlands íhugar að höfða mál gegn finnsku dagblaði sem birti SMS-skilaboð sem hann sendi ungri konu, en ráðherrann hafði áhuga á að kynnast henni nánar.

Konan sem Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands sendi SMS skilaboðin, hefur ekki verið nafngreind en hún er 35 ára gömul. Hann bað hana um að hitta sig, og spurði hvort hún hefði áhuga á sér.

Finnska blaðið Ilta Sanomat birti þessi skilaboð forsætisráðherrans, um helgina, og reiddist hann því mjög. Sænska blaðið Dagens nyheter segir að á bloggsíðu sinni hafi ráðherrann sagt að hann hyggðist hafa samband við saksóknara, til þess að ræða málið.

Verður forvitnilegt að sjá hvort ráðherrann fer fram á lögbann gegn birtingu fleiri skilaboða, og hvort sýslumaðurinn í Helsinki verður við þeirri kröfu.

Vanhanen segir að þetta hafi verið einkaskilaboð og blaðið hafi ekki haft neitt leyfi til þess að gera þau opinber. Ilta Sanomat segir hinsvegar að konan hafi sjálft sýnt mörgum mönnum skilaboðin og þannig hafi blaðið frétt af þeim. Það telur sig því vera í fullum rétti að birta skilaboðin.

Matti Vanhanen er fimmtugur að aldri. Hann á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, en þau skildu fyrir réttu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×