Erlent

300 manns á biðlista

Þó að fylgikvillar offitu kosti samfélagið milljarða króna á ári er hún ekki eitt af forgangsverkefnum í heilbrigðisáætlun til ársins tvö þúsund og tíu. Þrjú hundruð manns bíða eftir meðferð vegna offitu á Reykjalundi. Biðlistinn lengist stöðugt og meira en tvö ár geta liðið þangað til fólk kemst að.

Rúmlega helmingur Íslendinga yfir tvítugu er yfir kjörþyngd og þar af þjáist nærri sjötti hver landsmaður beinlínis af offitu. Þeir sem eru komnir í mikinn vanda sækja margir um að komast að á Reykjalundi, í atferlismeðferð sem hefur gefið góða raun. En það er ekki hlaupið að því að komast á Reykjalund. Ludvig Guðmundsson endurhæfingarlæknir segir að nú bíði um þrjú hundruð manns eftir að komast í meðferðina á Reykjalundi.

Eftir meðferðina þar liggur leiðin í hjáveituaðgerð hjá mörgum. Í slíkri aðgerð er maginn minnkaður um níutíu prósent. Hver aðgerð af þessu tagi kostar samfélagið á bilinu eina til eina og hálfa milljón, en samt bendir flest til að ríkið spari offjár á því að þeir sem orðnir eru allt of feitir fari í svona aðgerð, því að hún dregur úr lyfjakostnaði, fækkar veikindadögum og legudögum á sjúkrahúsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×