Erlent

Appelsínugula byltingin á enda?

Andstæðingar appelsínugulu byltingarinnar virðast hafa sigrað í þingkosningunum í Úkraínu í dag. Sextán mánuðum eftir sögulegan sigur Viktors Júsjenkó, finnst íbúum Úkraínu lítið hafa áunnist og umbætur gengið allt of hægt.

 

Úkraínumenn hafa flykkst á kjörstaði í dag og víða hafa myndast langar biðraðir. Það er kannski ekki skrýtið, því að það tekur drjúgan tíma fyrir kjósendur að fara yfir kjörseðilinn, sem er nærri metri að lengd.

Flestir muna eftir hatrammri kosningabaráttu Viktors Janúkóvitsj og forsetans Viktors Júsjenkó, sem var byrlað eitur og afskræmdist nánast í andliti.

Þorri vestrænna ríkja studdi Júsjenkó með ráðum og dáð, en stjórnvöld í Rússlandi gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma Janúkóvitsj að kjötkötlunum.

Júsjenkó stóð eitrið af sér, komst til valda og hefur að einhverju leyti fært landið nær vesturlöndum á þeim sextán mánuðum sem hann hefur verið forseti. En íbúarnir eru margir ósáttir.

Vegna þessarar óánægju er nú útlit fyrir að landið gæti aftur færst nær stjórnvöldum í Kreml. Skoðanakannanir benda flestar til þess að flokkur Janúkóvitsj fái um þriðjung atkvæða í kosningunum í dag. Stjórnarmyndun gæti orðið erfið, því að hvorki Júsjenkó né Júlía Timosjenkó fyrrverandi forsætisráðherra vilja starfa með Janúkóvitsj og á milli þeirra tveggja andar enn köldu, eftir að Júsjenkó rak Timósjenkó úr starfi í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×