Erlent

Rányrkja á hákörlum við Galapagoseyjar

Mynd/Vísir

Verðmætir uggar hákarlanna við Galapagoseyjar freista óheiðarlegra sjómanna sem stunda rányrkju þar í svo miklum mæli að stofninn er í hættu. Um tvö hundruð þúsund hákarlar eru veiddir á slíkan hátt á ári hverju - uggarnir skornir af en skrokknum hent í sjóinn.

Á Galapagoseyjum er einstök náttúra, og þar finnast dýrategundir sem ekki eru til annarsstaðar í heiminum. Svæðið er því verndarsvæði og vandlega gætt. Þess vegna undra menn sig á því að menn komist upp með ólöglegar hákarlaveiðar við eyjarnar. Rétt fyrir helgi fundust 16 dauðir hákarlar í skipi, innan um matarbirgðir sem verið var að flytja frá eyjunum.

Veiðar þessar ógna hákarlastofninum við eyjarnar, en eftir miklu er að slægjast fyrir fátæka sjómenn því fyrir aðeins eitt pund af hákarlsugga geta þeir fengið sex þúsund krónur. Eftirlitsmenn við eyjarnar hafa staðið menn að slíkum veiðum sem koma langt að, jafnvel alla leið frá Japan. Bakuggi, sporður og eyruggi eru skornir af hákörlunum um leið, en skrokknum svo hent í sjóinn.

Talið er að um tvö hundruð þúsund hákarlar séu veiddir á þennan hátt við eyjarnar á ári hverju. Stjórnvöld í Ekvador hafa tilkynnt að þau muni auka eftirlit með veiðiþjófum við Galapagoseyjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×