Erlent

Lækningamáttur lýsis ofmetinn

Blessað lýsið er bæði hollt og gott, eða því höfum við að minnsta kosti haldið fram til þessa. Niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar benda hins vegar til að lækningamáttur lýsisins sé stórlega ofmetinn.

Þessi athyglisverða rannsókn var unnin af vísindamönnum við University of East Anglia en breskir fjölmiðlar greindu frá niðurstöðum hennar í dag. Vísindamennirnir lögðust yfir hátt í níutíu rannsóknir á gæðum og gagnsemi lýsisins og er skemmst frá því að segja að þeir komust að þeirri niðurstöðu að fátt ef nokkuð benti í rauninni til að ómega-þrír fitusýrurnar veittu þá vörn gegn geð- og gigtarsjúkdómum, krabbameini svo ekki sé minnst á hjarta- og æðasjúkdóma. Þvert á móti benda sumar niðurstöðurnar til að fólk sem hætt er við hjartaáföllum eigi alls ekki að taka lýsi.

Jón Ögmundsson, gæðastjóri Lýsis hf. segir rannsóknina langt í frá þýða að lýsi sé óhollt. Hann bendir á að Bretarnir séu fyrst og fremst að draga fyrri rannsóknir í efa út frá tölfræðaðferðum og hann gefur lítið fyrir þau viðvörunarorð að hjartveikir eigi ekki að neyta lýsis. Jón segir ennfremur að formælendur rannsóknarinnar séu alls ekki að mæla gegn neyslu á lýsi og feitum fiski og því er freistandi að draga þá ályktun að breska rannsóknin sýni að lýsi sé hollt en bara ekki eins hollt og áður var talið.

Jón tekur sjálfur lýsi á hverjum degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×