Erlent

Kom í leitirnar eftir tíu ár

Bandarísk stúlka, sem fyrir réttum áratug hvarf með öllu, birtist allt í einu í verslun í heimabæ sínum í fyrradag. Öryggisvörður í skólanum hennar hafði haldið henni í gíslingu á heimili sínu allan þennan tíma.



Tanya Nicole Kach var fjórtán ára gömul þegar hún hvarf heiman frá sér í febrúar 1996. Í heilan áratug spurðist ekkert til hennar þangað til í þessari viku þegar hún gekk inn í kjörbúð í heimabæ sínum, McKeesport í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, og sagði hver hún væri.


Skýringuna á hvarfinu sagði Kach vera þá að á sínum tíma hafi öryggisvörður við skólann hennar, Thomas nokkur Hose sem þá var 48 ára, tekið hana inn á heimili sitt og haldið henni þar. Foreldrar Hose bjuggu með þeim en að þeim frátöldum hitti stúlkan ekki nokkurn mann þar sem hún var lokuð inni í svefnherbergi þegar gesti bar að garði. Hose ákvað hvað hún borðaði og hverju hún klæddist en að öðru leyti er ekki ljóst hvort hann hafi unnið henni nokkurt mein. Síðustu árin virðist stúlkan meira að segja hafa haft eitthvert ferðafrelsi og til dæmis þekkti verslunareigandinn sem hún gaf sig fram við hana ágætlega, reyndar undir öðru nafni. Ekki er búið að handtaka Hose því saga stúlkunnar er of óljós til að lögregla treysti sér til að slá því föstu hvort um mannrán hafi verið að ræða. Talið er þó líkegt að hann verði í það minnsta ákærður fyrir samræði við ólögráða manneskju.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×