Erlent

Kínverjar hjálpa við þróun bóluefnis

Bólusettir fuglar.
Bólusettir fuglar. MYND/AP

Kínverjar hafa ákveðið að afhenda Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sýni úr dýrum sem sýkt eru af fuglaflensu. Stjórnvöld í Peking hafa verið sökuð um að liggja á sýnum líkt og ormar á gulli til að tryggja forskot kínverskra vísindamanna í þróun á bóluefni.

Það afbrigði fuglaflensu sem greinst hefur í Kína er sagt töluvert frábrugðið þeirri gerð flensunnar sem hefur fundist bæði í Tælandi og Víetnam. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að Kínverjar láti Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í té sýni til rannsókna.

Það hafa þeir ekki viljað gera hingað til og hafa verið sakaðir um að hygla þar með eigin vísindamönnum í kapphlaupinu um þróun bóluefnis. Sérfræðingar segja það bóluefni sem hafi verið þróað á grundvelli sýna frá Tælandi og Víetnam vinni ekki eins vel á kínverska afbrigði flensunnar. Búist er við að Kínverjar sendi nú tuttugu sýni til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á næstu vikum.

Alls hafa 103 einstaklingar látist af völdum fuglaflensu í heiminum frá því síðla árs 2003 samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni. Bandarískir vísindamenn hafa staðfest að H5N1 afbrigði fuglaflensuveirunnar hafi þróast í tvo áðurnefnda stofna, en það getur mögulega aukið hættuna gagnvart mönnum. Alls hefur veiran greinst í 21 Evrópulandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×