Erlent

Forsætisráðherra Frakklands sagður taka áhættu

Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, heimsótti vinnumiðlun í Poissy, vestur af París í gær.
Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, heimsótti vinnumiðlun í Poissy, vestur af París í gær. MYND/AP

Til átaka kom milli mótmælenda og óeirðalögreglu við Sorbonne-háskóla í París í gær. Tekist er á um nýja vinnulöggjöf þar í landi og telja stjórnmálaskýrendur að forsætisráðherra landsins leggi stjórnmálaferil sinn að veði með því að draga ekki í land í málinu.

Sorbonne-háskóli og nágrenni hans hefur verið eins konar miðstöð mótmælanna síðustu vikur en gærdagurinn var sá fjórði í röð sem mótmælendur létu til sín taka. Mótmælendur hafa þó komið saman víðsvegar um Frakkland síðustu vikur en með einhverjum hléum.

Það voru mörg þúsund stúdentar sem komu saman til að mótmæla nýju vinnulöggjöf. Lögregla reyndi að dreifa mannfjöldanum og notaði til þess kylfur og táragas. Mótmælendur köstuðu flöskum og öðru lauslegu að lögreglu.

Stjórnvöld hafa hingað til ekki viljað fella lögin úr gildi og segja þeim ætlað að draga úr atvinnuleysi meðal ungs fólks. Mótmælendur, sem njóta stuðnings verkalýðsfélaga, segja hins vegar að lögin auðveldi atvinnurekendum að reka ungt starfsfólk á skýringa.

Dominique De Villepin, forsætisráðherra, kom óvænt í heimsókn í vinnumiðlun í Poissy, vestur af París. Þar vildi hann ræða við stúdenta. Stjórnmálaskýrendur í Frakklandi segja forsætisráðherrann leggja stjórnmálaferil sinn að veði með því að halda fast í nýju löggjöfina. De Villepin segist þó tilbúin til viðræðna um hvernig megi bæta hana. Búist er við frekari mótmælum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×