Erlent

H5N1-veirustofninn skiptir sér

MYND/AP

Fuglaflensuveirustofninn H5N1, sem hefur nú orðið yfir hundrað manns að aldurtila, er farinn að skipta sér og verða fjölbreyttari að uppbyggingu erfðaefnis. Þetta kemur fram í rannsóknum bandarískra sérfræðinga.

Segja má að fjölskyldutré veirunnar sé farið að stækka, út frá sameiginlegum forföður. Árið 2003, þegar veiran greindist fyrst í fólki, var aðeins til ein útgáfa af veirunni en eftir umfangsmiklar samanburðarrannsóknir á yfir 300 sýnum hafa vísindamenn nú fundið fleiri afbrigði veirunnar. Afbrigði veirunnar hafa álíka mikið sameiginlegt erfðaefni og systkinabörn, ef rætt væri um menn.

Eftir því sem veiran stökkbreytist oftar og fleiri afbrigði hennar koma fram á sjónarsviðið aukast líkurnar á því að hún nái að þróa eiginleika til að geta borist frá manni til manns. Enn hefur þó ekkert afbrigði veirunnar þessa eiginleika og því ekki ástæða til að óttast um efni fram.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×