Erlent

Um 200 manns handteknir í Hvíta-Rússlandi

Lögregla í Hvíta-Rússlandi hefur handsamað yfir tvö hundruð manns síðan á sunnudag en fólkið tók þátt í að mótmæla forsetakosningunum sem fram fóru á sunnudag. Talið er að um 300 manns séu enn á Októbertorgi í miðborg Minsk, höfuðborgar landsins, þar sem fólkið mótmælir framkvæmd forsetakosninganna og úrslitum þeirra. Töluvert hefur þó fækkað í hópnum vegna mikilla kulda og snjókomu.

Samkvæmt niðurstöðum yfirkjörstjórnar Hvíta-Rússlands, sigraði Alexander Lukashenko forseti mótframbjóðendur sína með yfirburðum. Sá sem næstflest atkvæðin fékk, Alexander Milinkevich, hefur hvatt fólk til að mótmæla kosningunum á Októbertorgi. Hann krefst þess að þær verði haldnar að nýju vegna alvarlegra athugasemda sem erlendir kosningaeftirlitsmenn hafa gert við framkvæmd þeirra. Fjórir samstarfsmenn Milinkevichs voru handteknir síðla nætur, þegar þeir hugðust fara af torginu. Samkvæmt nýjum fréttum frá Minsk hafa þrír þeirra þegar verið dæmdir í 10 daga fangelsi fyrir þátttöku sína í mótmælunum. Mótmæli eins og þau sem staðið hafa á Októbertorgi frá því á sunnudag eiga sér ekki fordæmi í Hvíta-Rússlandi. Öryggissveitir forsetans kæfa slíkar aðgerðir yfirleitt í fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×