Erlent

Fjölmargir mótmæla í Minsk

Mótmælendur í Minsk.
Mótmælendur í Minsk. MYND/AP

Fjölmargir mótmælendur hafa ákveðið að tjalda í nokkrar nætur í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, svo halda megi út sólarhringsmótmælum gegn niðurstöðu forsetakosninganna þar í landi á sunnudag. Eitthvað virðist þó vera að draga úr eldmóð andstæðinga forsetans. Þrír háttsettir stjórnarandstæðingar voru handteknir í gærkvöldi.

Alexander Lúkasjenko var þá endurkjörinn forseti með rúmum áttatíu prósentum atkvæða. Hann hefur verið við völd í tólf ár. Stjórnarandstæðingar segja brögð hafa verið í tafli og alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn telja kosningarnar hvorki hafa verið frjálsar né sanngjarnar. Evrópusambandið segja koma til greina að beita Hvítrússa refsiaðgerðum.

Lúkasjenkó þykir óvandur að meðulum og hefur verið sakaður um ýmis mannréttindabort í stjórnartíð sinni.

Bandaríkjastjórn vill að boðað verði til nýrra kosninga. Talsmaður Bush Bandaríkjaforseta óskaði huguðum Hvítrússum til hamingju með að hafa látið óánægju sína með úrslitin í ljós. Hann sagði bandarísk stjórnvöld krefjast þess að þeir sem hefðu verið hnepptir í varðhald í aðdraganda kosninganna verði þegar látnir lausir.

Kosningastjóri Milinkevitsj, helsta andstæðings Lúkasjenko, var handtekinn í gærkvöldi ásamt þremur öðrum stjórnarandstæðingum.

Ekki er víst hvort stjórnarandstæðingum takist ætlunarverk sitt, að koma forsetanu frá líkt og gert var í Úkraínu. Þeir hafa þó heitið því að það verði mótmælt allan sólahringinn, eins lengi og með þurfi. Nokkuð færri mættu þó í nótt en í fyrrinótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×