Erlent

Aðgerðum í Samarra framhaldið

Bandarískir hermenn í Samarra.
Bandarískir hermenn í Samarra. MYND/AP

Umfangsmiklar aðgerðir bandarískra og írakskra hersveita nálægt borginni Samarra í Írak halda áfram en þær hófust í síðustu viku. Leiðtogar súnnímúslíma í landinu eru afar reiðir vegna þessa og segja aðgerðirnar varla geta komið á verri tíma þegar verið er að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn í landinu.

Hersveitir eltast við andspyrnumenn í Samarra-borg og hafa aðgerðir staðið í fjóra daga. Svæðið sem herjað er á var pólitískt vígi Saddams Hússeins, fyrrverandi forseta.

Bílalest frá Rauða hálfmánanum í Írak kom með hjálpargögn til íbúa í úthverfi borgarinnar seint í gær. Talsmaður samtakanna hafði áður sagt að bandarískir hermenn kæmi í veg fyrir að hjálpargögn bærust íbúum og bæru fyrir sig að það væri af öryggisástæðum.

Ekkert lát er á ofbeldisverkum í landinu þrátt fyrir aðgerðir Bandaríkjamanna. Að minnsta kosti tveir íraskir lögreglumenn og einn óbreyttur borgari létu lífið þegar vegsprengja sprakk nálægt fangelsi í miðborg Bagdad í morgun.

Þrjú ár voru í gær frá innrásinni í Írak og segir Bush Bandaríkjaforseti að um þrjátíu þúsund Írakar hafi fallið. Mannréttindasamtök telja hins vegar að mun fleiri hafi látið lífið. Vitað er að rúmlega tvö þúsund hermenn í fjölþjóðlega innrásarliðinu hafa fallið.

Bush Bandaríkjaforseti notaði tilefnið í gær til að lofa frammistöðu hermanna í Írak og sagði sigur í námd. Iyad Allawi, fyrrverandi forsætisráðherra Íraks, sagði hins vegar í gær að borgarastyrjöld væri hafin í landinu og sagði að það yrði að grípa í taumana hið fyrsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×