Erlent

300 handteknir í óeirðum

MYND/AP

Til óeirða kom í grennd við Sorbonne-háskólann í miðborg Parísar í gærkvöld. Um þrjú hundruð manns voru handteknir þegar námsmenn mótmæltu nýjum atvinnulögum ríkisstjórnarinnar.

Nokkur hundruð námsmenn köstuðu steinum, flöskum, borðum og stólum af nærliggjandi kaffihúsum að lögreglu sem svaraði með því að dreifa táragasi að æstum lýðnum. Þá handtók lögreglan um þrjú hundruð manns.

Mótmælin, sem staðið hafa undanfarna daga, beinast gegn nýjum lögum ríkisstjórnarinnar sem fjalla um starfssamninga fólks undir 26 ára aldri með ákvæðum um möguleika á uppsögn án útskýringa innan tveggja ára. Þeim er ætlað að hvetja vinnuveitendur til að ráða ungt fólk án þess að þeir þurfi að óttast að sitja uppi með starfsmenn sem ekki standa sig.

Andstæðingar laganna segja aftur á móti að vinnuveitendur muni nota sér þetta til að næla sér í ódýrt vinnuafl og að lögin muni gera ungu fólki erfiðara um vik að fá langtímastörf.

Forsætisráðherra Frakklands hefur boðist til að ræða um lögin við nemendur og aðra sem það vilja, en hefur þó sagt það alveg víst að lögin muni ganga í gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×