Erlent

Leigja út Dick Cheney veiðigalla

Búningaleiga í Bandaríkjunum hefur hafið leigu á Dick Cheney veiðigöllum. Gallinn er leigður undir þeim formerkjum að vera hin fullkomna leið til að hræða veiðifélagana.

Varaforseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Eftir að hafa óvart skotið veiðifélaga sinn Harry Whittington um síðustu helgi hefur varaforsetinn ekki verið látinn í friði af spjallþáttastjórnendum og öðrum skemmtikröftum vestan hafs.

Og til að bæta gráu ofan á svart hefur þekkt búningaleiga í New York nú tekið upp á því að bjóða svokallaða Dick Cheney veiðibúninga. Fyrir rétt tæpar tíu þúsund krónur getur fólk leigt sér vesti, hatt, byssu og forláta vasapela í fjóra daga og allt auðvitað í stíl við veiðigalla Cheneys um síðustu helgi.

Gárungarnir segja búninginn tilvalinn til þess að hræða líftóruna úr veiðifélögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×